Reykjavíkurkort og Njóla eftir Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson (1788-1876) var sagður fremsti stærðfræðingur og stjörnufræðingur á Íslandi um sína daga. Hann var mikilvirkur landmælinga- og kortagerðarmaður og fyrsti eiginlegi kennarinn í stærðfræðilegum lærdómslistum hér á landi. Jafnframt lagði hann áherslu á að upplýsa almenning um náttúruvísindi, bæði í bundnu máli og óbundnu. Björn var heimspekilega sinnaður og þótt hann væri kannski fyrst og fremst undir áhrifum upplýsingarinnar gætir greinilegra áhrifa frá rómantísku náttúruspekinni í ýmsum verkum hans. Einar Guðmundsson skrifaði grein um Björn Gunnlaugsson og náttúruspekina í Njólu í Ritmennt.

Í trúar- og fræðiljóði sínu, Njólu sem kom fyrst út í Reykjavík árið 1842, vefur Björn saman margvíslega þræði trúar og vísinda til þess að setja fram heildarkenningu um alheiminn og tilgang hans. Njóla samanstendur af 528 erindum sem flest eru ferskeytlur, en nokkur undir hætti sem kallast gagaraljóð. Njóla naut mikillar alþýðuhylli á sínum tíma og kom út alls þrisvar sinnum. Útgáfa Njólu frá 1853 með formála eftir Jón Árnason er aðgengileg á baekur.is.

Björn Gunnlaugsson kemur við sögu á sýningunni Andlit til sýnis sem nú stendur yfir í safninu auk þess sem þar má sjá kort eftir hann af Reykjavík frá 1834.

Tilefnið er að árið 1856 var hér á landi leiðangur prins Jérôme Napoleon Bonaparte sem lét gera gifsafsteypur og brjóstmyndir af sex Íslendingum, þ.á.m. af Birni Gunnlaugssyni. Tilgangurinn var að skrá niður mismunandi tilbrigði kynþátta og greina þverþjóðleg tengsl sem urðu til með kynþáttavísindum. 

Reykjavíkurkort og Njóla eftir Björn Gunnlaugsson eru kjörgripir safnsins í júlí. Teikninguna af Birni gerði Sigurður Guðmundsson málari.

Fyrri kjörgripir


Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Spjallið er opið 9:00 - 16:00 virka daga.

Hleður spjall...
Netspjall