Nýverið var Kennsluvefur í upplýsingalæsi settur í loftið. Vefurinn er afrakstur samstarfshóps háskólabókasafna um upplýsingalæsiskennslu og hlaut verkefnið styrk frá bókasafnasjóði. Upplýsingalæsi er grundvallarhæfni sem allir háskólanemar þurfa að búa yfir, ekki bara til að takast á við námskröfur heldur líka til að nýta upplýsingar á ábyrgan og gagnrýninn hátt í síbreytilegu upplýsingasamfélagi.
Kennsluvefurinn www.upplýsingalæsi.is inniheldur fjölbreytt námsefni sem tekur bæði á grunnatriðum og flóknari aðgerðum heimildarleitar. Vefurinn leggur sérstaka áherslu á að hjálpa nemendum að skipuleggja heimildaleit og meta upplýsingar í verkefnavinnu. Með því að taka þetta netnámskeið geta nemendur þróað þessa hæfni og öðlast aukið sjálfstraust í leit að heimildum og upplýsingum í námi sínu.
Vefurinn er öllum aðgengilegur og býður upp á einfalt og notendavænt námsefni sem samanstendur af myndböndum, skýringarmyndum, texta og stuttum verkefnum. Það tekur um 80 mínútur að klára námskeiðið. Nemendur geta farið í gegnum efnið á eigin hraða, þannig að námskeiðið hentar bæði sem grunnnámskeið fyrir nýja nemendur og sem endurmenntun fyrir þá sem vilja bæta við sig þekkingu á upplýsingalæsi.
Netspjall_
Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.
Spjallið er opið 9:00 - 16:00 virka daga.