Á þriðja hundrað sendibréfa gengu á milli Guðrúnar Lárusdóttur og Sigurbjarnar Ástvalds Gíslasonar snemma á 20. öld. Bréfaskipti þeirra, eins og þau eru varðveitt í safninu, hefjast með bréfi frá henni 28. febrúar 1900 og þau byrja á að ávarpa hvort annað sem „kæra systir“ og „kæri bróðir“. Þau ræða mikið um trúmál enda var Sigurbjörn prestur og Guðrún prestsdóttir. Guðrún skrifaði eitt sinn til Sigurbjörns að hún vildi óska þess að hún væri piltur svo hún sjálf gæti orðið prestur.
Guðrún og Sigurbjörn giftust 27. júní 1902 og eignuðust 10 börn. Guðrún (1880-1938) var rithöfundur, sat í bæjarstjórn Reykjavíkur 1912-1918 og var önnur kona til að setjast á þing. Hún var þingmaður Sjálfstæðisflokksins 1930-1938. Þá var hún einnig formaður Kristniboðsfélags kvenna í Reykjavík frá 1926, sömuleiðis til æviloka. Hún kom að stofnun Húsmæðrafélags Reykjavíkur og var fyrsti formaður þess 1935–1938. Sigurbjörn (1876–1969) var prestur og stofnandi elliheimilisins Grundar. Hann var formaður sóknarnefndar Dómkirkjunnar í 30 ár, sat í framkvæmdanefnd stórstúku Íslands, var stjórnarmaður Sambands íslenskra kristniboðsfélaga og formaður Barnaverndarráðs.
Úrval sendibréfa Guðrúnar og Sigurbjörns er nú á örsýningu í safninu.
Eldri kjörgripur
Sjá nánarNetspjall_
Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.
Spjallið er opið 9:00 - 16:00 virka daga.