Systurnar Unnur (1912-2004) og Bentína (1903-1965) Stefánsdætur settu upp bókbandsverkstæði í Grjótagötu 4 árið 1952. Þær urðu fljótlega mjög virtar meðal bókasafnara, enda komu margar dýrmætar bækur til þeirra til viðgerðar og bands. Unnur sá um viðgerðir og gyllingu og Bentína sá að mestu um bókbandið. Fram til 1960 höfðu þær ekki merkt verk sín, frekar en tíðkast hafði meðal íslenskra bókbindara. En árin 1960-1965 voru bækur frá þeim merktar U&B, en US eftir andlát Bentínu. Unnur hélt rekstri bókbandsstofunnar ein áfram fram til 1998 og sá einnig um bókbandið. Í grein um bókbandsstofu þeirra systra í Tímanum árið 1962 kemur fram að bókasafnarar sem létu Unni hafa bækur sínar til viðgerðar hafi sagt, að það byggi undraverður „lækningamáttur" í fingrum hennar. Það væri sama, hversu illa bókin væri farin, hún fengi „bót flestra meina.“ Unnur batt inn finnska söguljóðið Kalevala árið 1957 af miklu listfengi. Bókin er tileinkuð Eggerti Kristjánssyni aðalræðismanni Finna. Hún er í bókbindarasafninu í Landsbókasafni ásamt fleiri bókum sem þær systur Unnur og Bentína bundu inn. Kalevala innbundin af Unni Stefánsdóttur er kjörgripur aprílmánaðar í tilefni af norrænni samsýningu bókbindara sem verður opnuð í safninu í apríl.
Eldri kjörgripur
Sjá nánarEldri kjörgripur
Sjá nánarNetspjall_
Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.
Spjallið er opið 9:00 - 16:00 virka daga.