Thorbjørn Egner í 100 ár (lokið)

Sýning í Þjóðarbókhlöðu

Landsbókasafnið minnist þess að nú eru 100 ár liðin frá fæðingu Thorbjørn Egners með sýningu í samstarfi viðsendiráð Noregs, Nasjonalbibliteket í Ósló, Þjóðleikhúsið og Leikminjasafnið. sendiráð Noregs, Nasjonalbibliteket í Ósló, Þjóðleikhúsið og Leikminjasafnið. Egner fæddist í einu af eldri hverfum Óslóar 12. desember 1912. Hann var fjölhæfur maður, skrifaði sögur og leikrit, samdi vísur og sönglög, teiknaði og málaði myndir í bækur sínar og leikmyndir og búninga fyrir sviðsetningar á verkum sínum. Snemma á stríðsárunum fór Egner að semja sögur fyrir börn. Hann átti að baki yfir tuttugu barnabækur þegar sagan um Karíus og Baktus, kom út í Noregi 1949. Hann tók einnig saman lestrarbækur fyrir skóla og var mikilvirkur þýðandi. Egner heillaðist ungur af leiklist, samdi leikþætti og bjó til leikbrúður þegar á námsárum sínum. Bækur hans urðu til þess að hann var ráðinn við barnatíma norska ríkisútvarpsins 1946. Þar heyrðust raddir þeirra Karíusar og Baktusar, Mikka refs og Soffíu frænku fyrst. Þegar sögur hans tóku að umbreytast í leiksýningar í Noregi seint á sjötta áratug 20. aldar var Egner allt í öllu; teiknaði búninga, hannaði leikmynd og bjó til plaköt.

Samstarf Egners við Þjóðleikhúsið var gott og langt. Hann kom til landsins vorið 1961 er sýningum var að ljúka á Kardemommubænum og ferðaðist þá um landið. Þegar sviðsetningin var endurvakin 1965 stofnaði hann sjóð fyrir listamenn við Þjóðleikhúsið sem hefur styrkt þá marga til utanfarar. Þegar Egner var orðinn aldraður gaf hann til allrar framtíðar höfundarlaun sín af sviðsetningum verka sinna til Þjóðleikhússins og skyldu þau renna til Egner-sjóðsins. Sviðsetning Þjóðleikhússins á Dýrunum í Hálsaskógi í nóvember 1962 var heimsfrumsýning þar sem leikarar fóru með hlutverkin, en áður hafði verkið verið flutt í brúðuleikhúsi í Noregi. Um þessar mundir eru því liðin 50 ár frá frumuppfærslunni á þeirri sýningu. Egner gerði leikmynd og búninga við nokkrar sýningar á eigin verkum í Þjóðleikhúsinu, og gaf Þjóðleikhúsinu búninga- og leikmyndateikningar sínar.

Thorbjørn Egner lést á aðfangadag jóla árið 1990 og átti þá að baki fjölskrúðugan feril. Þá var hann löngu orðinn þjóðkunnur maður í heimalandi sínu og vinsæll víða, m.a. hér á landi. Verk hans og persónur lifa góðu lífi eins og sviðsuppfærslur Þjóðleikhússins á Dýrunum í Hálsaskógi og Karíusi og Baktusi árið 2012 sýna. Hulda Valtýsdóttir þýddi bæði leikrit Egners og barnabækur og Kristján frá Djúpalæk þýddi ljóðin. Bækurnar um Karíus og Baktus, Kardemommubæinn og Dýrin í Hálsaskógi hafa verið vinsælar hér á landi um áratugaskeið sem og plötur og hljómdiskar með leikritunum sem voru hljóðrituð í Ríkisútvarpinu. Allt þetta efni er varðveitt í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni.

Sýningarskrá

Á vef Nasjonalbiblioteket í Ósló er sérvefur um Egner: http://www.nb.no/egner

Eldri sýningar og viðburðir

Allar sýningar
Paradísarheimt 60/40

Paradísarheimt 60/40

Sýning í Þjóðarbókhlöðu

Sjá nánar
Nína Tryggvadóttir – 100 ára minning

Nína Tryggvadóttir – 100 ára minning

Sýning í Þjóðarbókhlöðu

Sjá nánar
Sjón er sögu ríkari

Sjón er sögu ríkari

Sýning í Þjóðarbókhlöðu

Sjá nánar

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Spjallið er opið 9:00 - 16:00 virka daga.

Hleður spjall...
Netspjall