Fréttasafn - Landsbókasafn

Verðlaun fyrir skrif um jarðhita

15.02.2013

Í sumar kom út hjá forlaginu Elsevier í Oxford átta binda fræðsluverk, Comprehensive Renewable Energy, um endurnýjanlega orku. Verkið spannar alla endurnýjanlega orku og er heilt bindi í verkinu helgað jarðhita undir ritstjórn Þorsteins I. Sigfússonar prófessors og forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Á fundi í Washington í vikunni tilkynnti Samband bandarískra útgefenda að verkið hefði hlotið hin viðurkenndu PROSE-verðlaun sem veitt eru fyrir stór margra binda alfræðirit.

Heildarverkið er á fimmta þúsund síður og bindið um jarðhita er 300 blaðsíður að stærð. Bindið er borið uppi af köflum rituðum af íslenskum vísinda- og tæknimönnum. Höfundar eru Guðni Axelsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Ólafur Flóvenz, Gylfi Páll Hersir, Kristján Sæmundsson, Sigrún N. Karlsdóttir, Halldór Ármannsson, Þráinn Friðriksson, Helga Kristjánsdóttir, Ásgeir Margeirsson og Þorsteinn I. Sigfússon.

Meðal annarra höfunda i bókinni eru Ronald diPippo, Lad Rybach og John Lund.

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn hefur fengið verkið til varðveislu í Íslandssafni. Þorsteinn Ingi Sigfússon, ritstjóri jarðhitabindisins, sagði við kynningu á verkinu í Landsbókasafni að PROSE-viðurkenningin væri kærkomin og bókin væri vitnisburður um hvað íslenskir vísindamenn standa framarlega á þessu sviði.


Hluti af íslensku höfundunum: f.v. Helga Kristjánsdóttir, Þorsteinn I. Sigfússon (ritstjóri), Brynhildur Davíðsdóttir, Ólafur Flóvenz, Sigrún N. Karlsdóttir, Þráinn Friðriksson, Halldór Ármannsson, Kristján Sæmundsson og Ingibjörg Sverrisdóttir, landsbókavörður.


Til baka

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Hleður spjall...
Netspjall