Femínistafélag Íslands

Sýning í Þjóðarbókhlöðu

Stofnfundur Femínistafélags Íslands var haldinn þann 14. mars árið 2003 í húsi Miðbæjarskólans. Á framhaldsstofnfundi tveimur vikum síðar, þann 1. apríl, var félagið formlega stofnað og kosið var í ráð og hópar stofnaðir. Hver starfshópur hefur ákveðnar áherslur en með því móti snertir félagið á sem flestum flötum kynjamisréttis. Ráðskona hvers hóps situr í ráði (nokkurs konar stjórn) félagsins ásamt talskonu þess. Núverandi talskona er Steinunn Rögnvaldsdóttir.

Karlahópur og öryggisráð félagsins hófu forvarnarátak gegn nauðgunum um verslunarmannahelgina 2003. Átakið bar yfirskrift­ina „Nauðgar vinur þinn?”  Þetta átak var grunnurinn að NEI - hreyfing­unni sem hefur staðið fyrir ótal átökum og uppákomum allar götur síðan. Þeirra á meðal má nefna herferðirnar „Karlmenn segja NEI við nauðgunum”, „10 ráð til að koma í veg fyrir nauðgun” og „Ef þú fékkst ekki samþykki, ertu nauðgari”. Markmið hreyfingarinnar er að virkja karlmenn í baráttunni gegn kynferðislegu ofbeldi.

Í kjölfarið á NEI - herferðunum verður farið af stað með átak þar sem áhersl­a verður lögð á nauðsyn þess að leita beri samþykkis. Þessi áherslubreyting er til komin vegna tilhneigingarinnar til að varpa ábyrgðinni af kynferðisbrotum á brotaþola. Það er því ekki nóg að hafa EKKI fengið NEI, heldur þarf JÁ enda er SAMÞYKKI SEXÝ.

Sumarið 2005 kom sú hugmynd upp innan ungliðahóps félagsins að búa til barmmerki sem væri tileinkað baráttunni gegn kynbundnum launamun. KRÓNA KONUNNAR var tilbúin í nóvembe­r sama ár.

Þetta ár voru heildarlaun kvenna 65% af heildarlaunum karla og sýnir barmmerkið þennan launamun á táknrænan hátt. Alls voru búin til 30.000 merki og náðu þau strax miklum vinsældum.

Femínistafélagið er frjáls og óháður vett­vangur sem hefur það að markmiði að efla gagnrýna og femíníska umræðu á öllum sviðum þjóðlífsins. Félagar reyn­a eftir fremsta megni að vera góðar femínískar fyrirmyndir og taka þátt í lýðræðislegri, gagnrýninni og opinberri umræðu um kynjamisrétti í öllum birtingarmyndum þess.

Þann 19. júní 2003 sameinuðust íslenskar kvennahreyf­ingar um átakið „Málum bæinn bleikan”  í tilefni afmæli­s kosn­ingaréttar kvenna. Kvennahreyfingarnar voru, auk Femínista­félags Íslands; Kvenréttinda­félagið, Kvennakirkjan, Bríet, Vera, Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræði (RIKK) og Kvennasögusafnið.

Átakið hefur verið haldið á hverju ári síðan og eru allir hvatt­i­r til að sýna jafnréttisbaráttunni stuðning með því að gera eitthvað bleikt þennan dag.

Á tímalínunni má sjá nokkrar stiklur í sögu Femínistafélags Íslands, allt frá stofnun þess til dagsins í dag. Það er óhætt að segja að margt hafi gerst á 10 ára sögu félagsins enda hafa störf þess vakið athygli og umræður í samfélaginu. Femínistafélagið hefur áunnið sér þann sess að til þess er leitað um álit á ýmsum málum og til umsagnar um lagafrumvörp eða regluverk.

FEMÍNISTAFÉLAG ÍSLANDS er umræðuvettvangur og baráttutæki íslenskr­a femínista. Félagið er frjáls og óháður vett­vangur sem hefur það að markmiði að efla gagnrýna og femíníska umræðu á öllum sviðum þjóðlífsins. Helstu markmið félagsins eru:

  • Að vinna að jafnrétti kynjanna.
  •  Að vinna gegn hverskonar birtingarmyndum kynjamisréttis. Þar má nefna klámvæðinguna, ágengar og lítilsvirðandi auglýsingar, ofbeld­i, mansal og vændi.
  • Að uppræta staðalmyndir um hlutverk og eðli kvenna og karla.
  • Að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði, útrýma kynbundnum launamun og auka hlut kvenna í stjórnun auðlinda og fjármagns.
  • Að styrkja þátttöku kvenna í opinberu lífi, fjölmiðlum og stjórnmálum.
  • Að stuðla að samfélagi sem tekur mið af mismunandi hags­munum og sjónarmiðum karla og kvenna svo sem í atvinnu- og mennta­málum, stjórnmálum, menningu og á vettvangi einkalífsins.

Markmiðum þessum skal náð með lýðræðislegri, gagnrýnni og sýnilegri umræðu á fundum, Netinu og í öðrum fjölmiðlum

Sýning hefur nú verið sett upp í Þjóðarbókhlöðu í tilefni af því að 10 ár eru liðin frá stofnun Femínistafélags Íslands. Sýningarstjóri og hönnuður sýningarinnar er Kolbrún Anna Björnsdóttir og er sýningin hluti af námi hennar í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands. Sýningin er byggð á vinnu Karenar Ástu Kristjánsdóttur og Rósu Bjarkar Bergþórsdóttur sem skrásettu sögu Femínistafélagsins á seinasta ári. Var skráningin unnin undir handleiðslu Þorgerðar Einarsdóttur, prófessors í kynjafræði, og styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Á sýningunni er stiklað á stóru í aðgerðum og áhrifum Femínistafélags Íslands síðustu 10 ár. Uppsetning sýningarinnar er styrkt af Hlaðvarpanum.

Sýningin er samstarfsverkefni Femínistafélags Íslands og Kvennasögusafns Íslands.

Sýningarskrá

Spjöld

 

Eldri sýningar og viðburðir

Allar sýningar
Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands 50 ára

Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands 50 ára

Sýning í Þjóðarbókhlöðu

Sjá nánar
Smekkleysa 30 ára

Smekkleysa 30 ára

Sýning í Þjóðarbókhlöðu

Sjá nánar
Jólaútgáfur

Jólaútgáfur

Sýning í Þjóðarbókhlöðu

Sjá nánar
Norrænt bókband 2013

Norrænt bókband 2013

Sýning í Þjóðarbókhlöðu

Sjá nánar

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Hleður spjall...
Netspjall