Fréttasafn - Landsbókasafn

Í tilefni sjómannadagsins

31.05.2013

Bjarni M. Gíslason (1908–1980) fæddist að Stekkjarbakka í Tálknafirði þar sem hann var til sjós frá fermingu til rúmlega tvítugs. Bjarni var 25 ára þegar ljóð hans „Sigling“ var sungið inn á plötu, en sú plata er kjörgripur júnímánaðar í Landsbókasafninu. Sama ár, 1933, kom út fyrsta ljóðabók hans, Jeg ýti úr vör:

Því skyldi jeg huglaus híma á ströndu
þó hrönn vilji banna för?
Enginn grefur úr græði perlur,
sem geymir í nausti knör.
—Upp með seglin! Jeg ýti úr vör.

Bjarni sigldi til Danmerkur sama ár og ljóðabókin Jeg ýti úr vör kom út og bjó þar til dauðadags. Hann gaf út ljóðabækur, skáldsögu og fræðirit á dönsku og stundaði kennslu við lýðháskólann í Ry á Jótlandi. Handritamálið var honum hugleikið og hélt hann marga fyrirlestra um það á Norðurlöndum og skrifaði greinar í blöð og tímarit. Íslenska ríkið heiðraði Bjarna með árlegu heiðursframlagi frá því að Danir hófu að senda handritin heim.

Hér má heyra flutning Erlings Ólafssonar á ljóði Bjarna „Sigling“ við lag Ernesto De Curtis. Upptakan var gerð 1933 og var gefin út á 78 snúninga plötu sem varðveitt er í tón- og myndsafni Landsbókasafns og er kjörgripur júnímánaðar í safninu: http://landsbokasafn.is/index.php/news/529/15/Sigling


Til baka

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Hleður spjall...
Netspjall