Nýtt (og gamalt) í íslenska vefsafninu

29.11.2013

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn var opnað 1. desember 1994. Í tilefni af afmæli safnsins í ár verða kynntar nýjungar í vefsafninu, en í Landsbókasafni hefur verið safnað íslensku efni af veraldar­vefnum síðan 2004 og gert aðgengilegt á vefnum Vefsafn.is.

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn hefur safnað íslensku efni af veraldarvefnum síðan 2004 og gert aðgengilegt á vefnum Vefsafn.is. Á þessum tíu árum hefur gríðarlegt magn efnis safnast, alls yfir 2 milljarðar skjala og tug þúsund gígabæta. Veraldarvefurinn er hinsvegar nokkuð eldri en 10 ára og hefur það verið galli að vefsafnið næði ekki lengra aftur.

Internet Archive

Internet Archive (http://archive.org) hefur safnað vefefni frá öllum heiminum síðan 1996. Hafa því Íslendingar hingað til þurft að horfa til þessa fyrirtækis um eldra vefefni en frá 2004. En ekki lengur.

Fyrr í ár náðist samkomulag milli Landsbókasafn Íslands og Internet Archive um skipti á gögnum. Fær Landsbóksafnið afrit af öllu íslensku efni sem finnst í hirslum Internet Archive frá upphafi og út 2004. Hefur þetta efni nú verið tekið inn í Vefsafn.is og verður gert aðgengilegt þar þann 29. nóvember. Vefefnið er komið heim.

Á móti fær Internet Archive stafræn afrit af íslenskum bókum sem eru utan höfundarréttar. Landsbókasafn hefur verið að mynda slíkar bækur undanfarin ár og birta á vefnum Bækur.is. Með þessum gagnaskiptum er eykst öryggi þessara bóka þar sem stafræn afrit verða varðveitt utan landssteinanna. Alls hafa yfir afrit af 700 bókum verið afhent Internet Archive og heldur sú vinna áfram samhliða myndun bóka hjá Landsbókasafni.

Samfelld söfnun

Önnur nýjung, sem kynnt verður á Vefsafn.is þann 29. nóvember, er samfelld söfnun á fréttavefjum og öðrum vefjum sem breytast ört.

Hefðbundnar safnanir Landsbókasafns á vefefni eru framkvæmdar þrisvar sinnum á ári. Þar sem mikið getur gerst þar á milli þá hefur völdum vefjum verið safnað vikulega. En vika getur líka verið langur tími.

Undanfarið ár hefur Landsbókasafn því verið að þróa og prófa samfellda söfnun á vefjunum sem breytast hvað mest. Er þetta gert með því að nýta RSS veitur vefjanna. Með þessu taka vefsafnanirnar mið af því hvenær nýtt efni kemur inn á vefinn. Er þannig hægt að grípa breytingar á milli mínútna. Þannig missum við ekki augnablikin þegar stórviðburðir koma fyrst í fréttirnar. Hægt verður að fletta í gegnum þá, nánast mínútu fyrir mínútu og sjá hvernig fréttirnar þróuðust á netinu.

Til baka

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Hleður spjall...
Netspjall