Stefna safnsins 2013 – 2017

09.12.2013

Landsbókasafn íslands - Háskólabókasafn hefur gefið út bækling sem skýrir stefnu safnsins 2013-1017.

Í upphafi árs 2013 hófst að nýju stefnumótunarvinna í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni. Tilgangurinn var að búa til vegvísi sem nýtist starfsfólki safnsins við að þróa starfsemina á næstu árum. Framkvæmdaráð safnsins, ásamt starfsmannastjóra, hefur verið stýrihópur í þessari vinnu og borið hitann og þungann af mótun stefnunnar. Sigurjón Þórðarson hjá ráðgjafafyrirtækinu Gekon leiddi verkefnið í upphafi, tók þátt í skipulagningu og stýrði fundum.

Við mótun stefnunnar var haft víðtækt samráð og haldnir fundir með starfsfólki, helstu samstarfs- og hagsmunaaðilum og sérstakur fundur var haldinn með hópi stúdenta frá Háskóla Íslands. Stjórn safnsins tók einnig virkan þátt í vinnunni, sótti fundi og fór yfir stefnuskjöl á mismunandi stigum en hún er  landsbókaverði til ráðgjafar um stefnu safnsins. Þá voru ýmis gögn lögð til grundvallar s.s. lög safnsins frá 2011, bókasafnalög sem voru samþykkt í árslok 2012, þingsályktun Alþingis um menningarstefnu frá 2013, stefna ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið frá 2013, gögn frá Landskerfi bókasafna og Landsaðgangi, auk þess sem tekið var mið af þróun í málaflokknum víða um heim.

Nýja stefnan byggir á eldri stefnu fyrir árin 2009-2013. Þar var áherslan lögð á þjónustu, rafrænar lausnir, söfnun og skipulag stafræns efnis, auk samvinnu. Áfram verður unnið á þeirri braut en einnig lögð áhersla á rannsóknir, nýsköpun og breytingar á því rými sem safnið starfar í.

Að þessu sinni er sett fram 61 stefnumál til næstu ára og skiptast þau í átta málaflokka. Til að vinna að þeim eru skilgreind 213 verkefni, stór og smá. Mörg verkefnanna eru þverfagleg og krefjast samstarfs milli ólíkra starfseininga innan safnsins, en önnur eru eðlilegt framhald fyrri verkefna. Framundan er að tengja þau við árlegar verkefnaáætlanir og hrinda þeim í framkvæmd.


Til baka

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Hleður spjall...
Netspjall