Fréttasafn - Landsbókasafn

Michel Butor og vinir – sýning í Þjóðarbókhlöðu

22.05.2014

Michel Butor og vinir – sýning í Þjóðarbókhlöðu í samstarfi við Listahátíð mánudag 26. maí kl. 16

Opnuð verður sýning í Þjóðarbókhlöðu á bókverkum Michels Butor og tólf listamanna á Listahátíð í Reykjavík mánudaginn 26 maí kl. 16.

Michel Butor er einn af fremstu höfundum hóps sem umbylti skáldsögunni í Frakklandi um 1960 undir  merkjum nýju skáldsögunnar („nouveau roman“). Butor hætti að skrifa skáldsögur á sjöunda áratugnum. Síðan hefur hann skrifað mjög mikið af ritgerðum, ljóðum, ferðasögum og alls kyns tilraunatextum.

Áratugumsaman hefur hann einbeitt sér að textum fyrir myndlistarbókverk, hefur gert  fjölda slíkra verka með afar mörgum myndlistarmönnum og haldið fyrirlestra um bókverk víða. Því má segja að bókmenntaferill Butors sé tvískiptur, annarvegar er „fyrra líf“ hans sem nýsöguhöfundur og hinsvegar textar hans fyrir myndlistarbókverk, ásamt alls kyns öðrum textum.

Sýningarstjóri er Bernard Alligand sem hefur valið á sýninguna bókverk tólf listamanna sem hafa unnið með Michel Butor. Frumkvæði að verkefninu á Sigurður Pálsson skáld sem hefur jafnframt unnið bókverk með Bernard Alligand. Þeir Sigurður og Alligand sýndu fyrsta sameiginlega bókverk sitt í Þjóðarbókhlöðunni árið 2007. Verkefnið er samstarf Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, Listaháskóla Íslands, Háskóla Íslands, Franska sendiráðsins, Alliance française og Listahátíðar í Reykjavík. Sýningin stendur til 29. ágúst.

Nemendur Aðalheiðar Guðmundsdóttur og Jóns Proppé við Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands  vinna verk sem kallast á við bókverkin.

Helga Kristín Gunnarsdóttir býður gesti velkomna, en ávörp flytja Marc Bouteiller sendiherra Frakklands, Sigurður Pálsson og Michel Butor.

Michel Butor og Bernard Alligand ræða verk sín í opinni málstofu með nemendum 28. maí 13:00 – 14:30.

Sjá nánar á vef Listahátíðar í Reykjavík


Til baka

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Hleður spjall...
Netspjall