Fréttasafn - Landsbókasafn

#FyrirÖld á Tímarit.is

28.07.2014

Frá og með deginum í dag, 28. júlí, mun Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn birta valdar fyrirsagnir úr íslenskum dagblöðum frá því fyrir öld á vefnum Tímarit.is, Twitter-síðu safnsins og Facebook-síðu Tímarit.is með kennimarkinu #FyrirÖld. Hugmyndin er að vekja athygli á því hversu mikilvægur aldarspegill íslensku dagblöðin eru. Fyrirsagnirnar vísa bæði til stórfrétta og hversdagslegra viðburða sem blöðin greina frá hverju sinni.

Í dag eru hundrað ár liðin frá upphafi hildarleiks fyrri heimsstyrjaldar. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn mun því skyggnast heila öld aftur í tímann, til ársins 1914 sem var með eindæmum viðburðaríkt og var til dæmis Eimskipafélags Íslands stofnað það ár. Í kjölfar morðsins á Franz Ferdinand, ríkisarfa Austurríkis-Ungverjalands og konu hans Sophie þann 28. júní 1914 lýsti Austurríki-Ungverjaland stríði á hendur Serbíu þann 28. júlí og markaði sú yfirlýsing upphaf heimsstyrjaldarinnar. Fyrirsagnir úr fréttum dagblaðanna verða dregnar fram til að minna á viðburði ársins 1914. Valdar fyrirsagnir af Tímarit.is frá því #FyrirÖld verða sendar út á Twitter- og Facebook-síðum safnsins næstu vikurnar auk þess að birtast á forsíðu Tímarit.is. Á vefnum Tímarit.is hefur nú verið bætt við þeim valkosti að hægt er að fá upp tengla á önnur dagblöð útgefin sama dag til að bera saman fréttir ólíkra dagblaða.

Vefurinn Tímarit.is geymir stafræna endurgerð íslenskra dagblaða og tímarita frá fyrstu tíð til okkar daga. Vefurinn hefur reynst gríðarmikilvægt innlegg í íslenska samtímaumræðu og hefur auðveldað til muna rannsóknir á íslensku samfélagi síðari alda. Tímarit.is er langvinsælasti vefur sem Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn hefur staðið að frá upphafi með í kringum þrjú þúsund innlit á dag að jafnaði.


Til baka

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Hleður spjall...
Netspjall