Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar

Þýðing Odds Gottskálkssonar (1514/1515 – 1556) á Nýja testamentinu var prentuð í Hróarskeldu árið 1540. Þetta mun vera fyrsta prentaða bók á íslensku. Oddur Gottskálksson var sonur Gottskálks „grimma“ Nikulássonar Hólabiskups, og hafði kynnst Lútherstrú á ferðum sínum í Noregi, Danmörku og Þýskalandi eftir lát föður síns 1521. 1534 eða 1535 sneri hann aftur til Íslands og réðst í þjónustu Ögmundar Pálssonar Skálholtsbiskups sem skrifari.

Hugsanlega hefur Oddur þegar hafist handa við þýðingu Nýja testamentisins byggða á þýskri þýðingu Marteins Lúthers og Vúlgötunni, hinni opinberu latnesku útgáfu árið 1534 eða 1535. Hann mun hafa búið um sig í fjósinu á Skálholti, bæði til að dylja iðju sína fyrir Ögmundi og eins vegna hitans. Hann sagði við Gísla Jónsson, annan úr hópi siðaskiptamanna í Skálholti: „Jesús, lausnari vor, var lagður í einn asnastall en nú tek ég að útleggja og í móðurmál mitt að snúa orði hans í einu fjósi.“ Nokkrum árum síðar flutti hann að Reykjum í Ölfusi og lauk þýðingunni þar.

Vorið 1539 hélt Oddur til Danmerkur, hugsanlega samskipa Gissuri Einarssyni sem var á leið þangað til að fá biskupsvígslu. Hann lagði þýðinguna fyrir Kristján 3. Danakonung sem ritar 9. nóvember 1539 að hann hafi látið lærða menn bera þýðinguna saman við latneska textann og hafi þeir álitið hana rétta. Eftir þetta gat Oddur látið prenta þýðinguna sem hann gerði fyrir eigin reikning. Prentuninni var lokið 12. apríl 1540 hjá Hans Barth í Hróarskeldu. Ekki er vitað hve mörg eintök voru prentuð en talið er líklegt að Oddur hafi ætlað sérhverjum presti á Íslandi eintak.

Þýðingin er stórmerkilegt frumkvöðulsverk þar sem Oddur smíðaði t.d. mörg nýyrði sem enn eru í notkun. Fræðimenn hafa löngum hrósað þýðingu Odds fyrir kjarnyrt mál og benda á að hann hafi lagt grunninn að þeim stíl sem enn er viðhafður í biblíuþýðingum. Sigurður Nordal kallaði þýðinguna „eitt af leiðarmerkjunum í sögu íslenskra bókmennta“. Hann taldi stíl Odds „svo svipmikinn og mergjaðan og mál hans svo auðugt, að enn [væri] unun að lesa guðspjöllin í þeim búningi“. Sem dæmi má nefna orð eins og „að formæla“ (var til áður en merkti allt annað), „ofurseldur“, „súrdeig“ og „brjóstmylkingur“. Þýðing Odds var tekin upp með örlitlum breytingum í Guðbrandsbiblíu 1584 og töluvert af henni stendur enn í nútímaútgáfum. Við hvern kafla Nýja testamentisins er formáli „hvar með það hinn einfaldi mann mætti undirvísan fá og frá leiðast sínum fornum óvana á réttan stig og hvað hann skal halda af þessari bók, svo að hann leitaði þar öngra boðorða né lögmáls er hann skyldi leita evangelia og Guðs fyrirheita“.

Bókin var ljósprentuð hjá Prentsmiðju S.L. Møller í Kaupmannahöfn 1933 og má sjá eintak af þeirri prentun á sýningunni Prentsmiðjueintök.

Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar á Bækur.is

Færsla bókarinnar í Bókaskrá til 1844

Sýningin Prentsmiðjueintök

Fyrri kjörgripir


200 ára | 1818-2018

Lokaðar dyr - leikmynd eftir Lothar Grund

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Póesíbók Kristínar Vídalín Jacobson

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Skjalasafn Hringsins

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Ein ný sálmabók 1589

Eldri kjörgripur

Sjá nánar

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Spjallið er opið 9:00 - 16:00 virka daga.

Hleður spjall...
Netspjall