Enumerate: Stafræn menning

26.03.2015

Niðurstöður Enumerate-könnunarinnar á stafrænu efni menningarstofnana 2014

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn hefur tekið saman niðurstöður úr Enumerate, evrópskri könnun um stafrænan safnkost menningarstofnana. Safnið hefur á undanförnum árum lagt áherslu á að auka aðgengi að efni sínu í gegnum stafræna miðla. Það hefur sett sér stefnu um stafræna endurgerð og varðveislu stafrænna gagna (http://landsbokasafn.is/uploads/stefnuskrar/stafraen_endurgerd_stefna_2011.pdf), þar sem markmiðið er að notendur geti nálgast efni safnsins hvar sem er og hvenær sem er. Enumerate könnunin er tilraun til þess að leggja mat á hvernig menningarstofnunum gengur að miðla stafrænu efni og og varðveita það, en magnið eykst með hverjum degi. Könnunin var framkvæmd síðla árs 2013  og var send til þúsunda stofnana í Evrópu, þar af fengu yfir 100 íslenskar stofnanir boð um þátttöku. Niðurstöður lágu fyrir vorið 2014 og eru aðgengilegar á vef Enumerate (http://enumerate.eu/). Niðurstöður könnunarinnar staðfesta að íslenskar menningarstofnanir nota í auknum mæli stafræna miðla til þess að gera safnefni sitt aðgengilegra almenningi. Meirihluti svaranda eða 71% þeirra íslensku stofnana sem tóku þátt sögðust hafa safnefni á stafrænu formi samanborið við 87% evrópskra stofnana. Þau íslensku söfn sem vinna að stafrænni endurgerð safnefnis segjast hafa lokið við að endurgera stafrænt 23% safnkostsins og að 52% séu eftir. Sambærilegar tölur fyrir Evrópu í heild eru 17% og 48% (ath að þetta eru ekki vegin meðaltöl). Í skýrslunni sem hér er birt eru niðurstöðurnar teknar saman og sérstaklega rýnt í stöðuna hér á landi. Stafræn menning er fyrsta skýrslan í  nýrri röð skýrslna á vegum Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns.

Skýrsluna er að finna hér.

Önnur umferð spurningarkönnunarinnar er þegar hafin. Íslenskum menningarstofnunum er boðið að taka þátt á vef Enumerate (http://enumerate.eu/).


Til baka

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Hleður spjall...
Netspjall