Íslensk bóksaga: erindi 7. október

05.10.2015

Miðvikudaginn 7. október munu Halldóra Kristinsdóttir og Sigríður Hjördís Jörundsdóttir halda erindið „Á jaðri samfélagsins. Utangarðs í handritasafni“ í fyrirlestraröðinni Íslensk bóksaga sem fram fer í fyrirlestrarsal Þjóðarbókhlöðu á milli kl. 12:05 – 12:45.

Í útdrætti erindisins segir:

„Sumarið 2013 var haldin í Þjóðarbókhlöðunni sýning sem hlaut nafnið Utangarðs? Þar var gerð grein fyrir lífi og starfi um þrjátíu einstaklinga sem á einhvern hátt féllu ekki inn í það samfélag sem þeir lifðu í. Grunnurinn að baki þeirri sýningu var rannsókn sem Halldóra Kristinsdóttir og Sigríður Hjördís Jörundsdóttir gerðu á safnkosti handritasafns Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og markmið sýningarinnar var að draga fram í dagsljósið handrit sem tengdust utangarðsfólki. Í kjölfarið á sýningunni hófust þær Halldóra og Sigríður handa við að skrifa bók um efnið, sem er væntanleg í bókabúðir í nóvemberbyrjun. Þar er sögð saga utangarðsfólks á Vesturlandi og Vestfjörðum og tengt við safnkost handritasafns.

Í erindinu verður sagt frá ýmsum handritum sem tengjast efninu  en margt áhugavert kom í ljós þegar farið var að leita í handritageymslunum. Dregin verða fram handrit sem utangarðsmenn hafa skrifað, sendibréf sem þeir hafa fengið, skjöl sem þeim tengjast og dagbækur sem þeir hafa skrifað.“

Allir velkomnir

Fyrirlestrarröðin er styrkt af Rannsóknarsjóði Sigrúnar Á. Sigurðardóttur og Haralds Sigurðssonar.


Til baka

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Hleður spjall...
Netspjall