Háskólabókasafn 75 ára

02.11.2015

Þann 1. nóvember eru liðin 75 ár síðan Háskólabókasafn var stofnað. Aðalbygging Háskóla Íslands var vígð 17. júní 1940 og síðar sama ár var bókasafninu fundinn staður í bakálmu hennar. Þá sameinuðust í eitt safn bókasöfn guðfræðideildar, læknadeildar og lagadeildar Háskóla Íslands. Þessi bókasöfn höfðu í öndverðu verið byggð upp af Prestaskólanum (stofnaður 1847), Læknaskólanum (stofnaður 1876) og Lagaskólanum  (stofnaður 1908) en síðan haldið við af viðkomandi deildum háskólans. Einnig fluttist bókasafn heimspekideildar í nýja safnið en sú deild var stofnuð um leið og háskólinn sjálfur, það er 1911.

Í grein eftir fyrrverandi háskólabókavörð Einar Sigurðsson, sem birtist í Sál aldanna (1997), segir hann um vígslu nýju byggingarinnar á Melunum: „Það var fagnaðarrík stund fyrir aðstandendur stofnunar sem lengi hafði verið í húsnæðishraki, enda þótt fram færi í skugga heimsstríðs og hersetu.“

Inngangur í safnið var úr forsal andspænis aðaldyrum. Safnið var á þremur hæðum en fyrir ofan var hátíðasalur háskólans. Öll starfsemi safnsins var til húsa í aðalbyggingu háskólans til 1963 en upp úr því var farið að stofna til útibúa og lesstofa fyrir stúdenta í öðrum húsum enda orðið afar þröngt í húsakynnum safnsins. Útibú frá safninu urðu mest átján og í Lögbergi er enn nokkuð stórt útibú sem er ætlað lagadeild háskólans. Önnur útibú hafa flest verið lögð niður og safnkosturinn fluttur í Þjóðarbókhlöðu. Bókasafnið fékk hátíðarsalinn tímabundið árið 1986 vegna þrengsla og var hann nýttur sem handbókasalur og lesrými. Alþingi ályktaði um sameiningu Háskólabókasafns og Landsbókasafns á vorþingi 1957 og hafði það alla tíð töluverð áhrif varðandi breytingar í safninu þar sem þær tóku alltaf mið af væntanlegri sameiningu. Forsenda fyrir sameiningunni var að nýtt húsnæði en Alþingi ákvað byggingu Þjóðarbókhlöðu ekki fyrr en 1970. Átti húsið að vera gjöf til þjóðarinnar í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1974. Eins og kunnugt er dróst bygging bókhlöðunnar lengi vel og hið nýja sameinaða safn varð ekki að veruleika fyrr en á fimmtíu ára afmæli lýðveldisins árið 1994.

Háskólabókaverðir urðu þrír: Dr. Einar Ólafur Sveinsson var háskólabókavörður til 1945 en þá tók dr. Björn Sigfússon við og gegndi starfinu til 1974. Það ár tók Einar Sigurðsson við og gegndi hann starfinu þar til safnið sameinaðist Landsbókasafni og flutti í Þjóðarbókhlöðu.

Í öndverðu var einungis einn fastur starfsmaður í safninu, það er sjálfur háskólabókavörður, á árunum 1964-1974 fjölgaði þeim í átta og þegar safnið flutti loks í Þjóðarbókhlöðu voru stafsmennirnir orðnir alls 22 auk nokkurra sem ráðnir voru sérstaklega til að undirbúa flutningana. Á sjöunda áratugnum var farið að bjóða upp á skipulagða safnkennslu, gefa út skrár og bæklinga og bjóða upp á millisafnalánaþjónustu. Í upphafi áttunda áratugarins gekk reksturinn vel en árin 1975-1985 mörkuðust af varnarbaráttu, eins og kemur fram í yfirliti Einars. Þó var farið að gera heimildaleitir með tölvu í erlendum gagnasöfnum í lok tímabilsins. Ýmsar tæknilegar nýjungar voru teknar upp svo sem tölvuskráning rita, sem hófst 1986. Bóka- og tímaritakaup jukust talsvert á þessum árum. Tölvukerfið Libertas var tekið í notkun í desember 1991 og hlaut íslenska nafnið Gegnir. Þrengsla var farið að gæta verulega um miðjan níunda áratuginn. Hátíðasal háskólans var breytt í lestrar- og handbókasal eins og áður var nefnt og sérsafn Benedikts S. Þórarinssonar var flutt 1991 í kennslustofu á 2. hæð aðalbyggingar háskólans, en fyrra rými þess breytt í vinnurými.

Í lok greinar sinnar segir Einar: „Háskólabókasafn starfaði hálfa öld og fjórum árum betur. Það átti lengst af frekar erfitt uppdráttar. Skortur á mannafla hrjáði það framan af og þegar á leið háðu húsnæðisþrengsli því mjög. Höfuðskyldur safnsins voru vitaskuld bundnar háskólasamfélaginu, en það stóð þó einnig opið öðrum þeim sem höfðu réttmæta þörf á að nota það, bæði lærðum og leikum, hvort heldur þeir leituðu þangað í tengslum við atvinnu sína eða af persónulegum áhuga og þörf á að auðga anda sinn.

Allur síðari helmingur starfstíma Háskólabókasafns mótaðist beint eða óbeint af undirbúningi þess sem koma skyldi, þ.e. að verða hluti af stærri heild og öflugra safni eftir sameiningu við Landsbókasafn. Starfsmenn þess beittu sér mjög fyrir því að upplýsingatæknin héldi innreið sína í safnið, þeir voru virkir í undirbúningi nýbyggingar fyrir hið nýja sameinaða safn, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, og unnu kappsamlega að skipulagsmálum þess og rekstraráætlunum.“

Byggt á: Einar Sigurðsson (1997): Háskólabókasafn 1940-1994 í „Sál aldanna. Safn greina um bókasöfn og skyld efni.“ [Reykjavík]: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Háskólaútgáfan, bls. 99-109.


Til baka

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Hleður spjall...
Netspjall