Einkaskjöl Jónu Margrétar Tómasdóttur

14.01.2016

Nú stendur yfir þjóðarátak um söfnun á skjölum kvenna. Handritasafn Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, Þjóðskjalasafn Íslands, Kvennasögusafn Íslands og héraðsskjalasöfn um land allt vilja nýta 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna til að vekja athygli á að skjöl kvenna skila sér í mun minna mæli inn á söfnin en skjöl karla.

Einkaskjalasafn Jónu Margrétar Tómasdóttur (1913-2005) er eitt þeirra safna sem komið hefur á handritasafn gegnum söfnunarátakið. Jóna Margrét var húsmóðir í Reykjavík og stundaði einnig saumaskap.

Í safninu er að finna ýmsan kveðskap eftir Jónu Margréti og aðra. Margt af því er hripað niður á miða af ýmsum toga. Einnig eru í safninu minnisbækur sem Jóna Margrét hefur notað til að halda utan um saumanámskeið sem hún hélt. Þá eru þar ferðadagbók, bréf og erindi sem ber titilinn „Þegar ég lenti í ástandinu“. Erindið  var flutt á Hótel Sögu 19. apríl 1991 og segir þar frá kynnum íslenskra kvenna af bandarískum hermönnum.

Meðal þess sem nú má sjá á lítilli sýningu í safninu er dagbók frá árinu 1991 en í hana hefur Jóna Margrét skrifað vísur fyrir hvern dag. Næstu vikurnar verður dagbókinni flett þannig að hægt verði að lesa vísu hvers dags.


Til baka

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Hleður spjall...
Netspjall