Geirfuglinn - sérsýning í Safnahúsinu

29.06.2016

Þann 16. júní var opnuð sérsýning um geirfuglinn í Safnahúsinu við Hverfisgötu en í sérsýningarrými hússins skiptast á sýningar á vegum þeirra sex stofnana sem standa að sýningunni Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim.

Sýningin er samstarfsverkefni Náttúruminjasafns Íslands og Ólafar Nordal myndlistarmanns í samvinnu við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Náttúrufræðistofnun Íslands og nefnist Geirfugl  † Pinguinus impennis  Aldauði tegundar – Síðustu sýnin.

Geirfugl er útdauð tegund en talið er að síðustu tveir geirfuglarnir á Jörðu hafi verið drepnir í Eldey undan Reykjanesi í júní árið 1844. Fuglarnir voru sendir til Háskólans í Kaupmannahöfn og þar eru líffæri og innyfli fuglanna enn varðveitt í 11 glerkrukkum í Náttúrufræðisafni Danmerkur. Ekki er vitað með vissu hvar hamir fuglanna eru niður komnir.

Á sýningunni gefur að líta uppstoppaðan geirfugl sem keyptur var 1971, uppdrátt af Geirfuglaskeri frá því um 1770 sem sýnir veiðar á geirfugli og fleiri svartfuglum, og ný verk eftir Ólöfu Nordal: Ellefu ljósmyndir af líffærum og innyflum síðustu geirfuglanna tveggja eins og þau eru varðveitt í Náttúrufræðisafni Danmerkur, frásögn af drápi síðustu geirfuglanna í Eldey og myndskeið sem sýnir veiðar á fugli í Vestmannaeyjum.

Nánari upplýsingar eru á vef Náttúruminjasafns Íslands: http://nmsi.is/


Til baka

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Hleður spjall...
Netspjall