Fagurfræði óvissunnar: Snorri Hjartarson og John Keats

24.09.2016

 
Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands, heldur erindi í Þjóðarbókhlöðunni miðvikudaginn 5. október kl. 12 sem hann nefnir „Fagurfræði óvissunnar: Snorri Hjartarson og John Keats“. Erindið er hluti af dagskrá Lestrarhátíðar í Reykjavík.

John Keats (1795–1821) setti fram hugmyndir um skáldskap sem má hafa til hliðsjónar við lestur á ljóðum Snorra Hjartarsonar. Snorri hreifst mjög af ljóðum Keats og lagði út af þeim í eigin skáldskap. Frumort ljóð hans og afstaða til skáldskapar líkjast um margt því sem Keats kallar neikvæða færni (e. negative capability). Þá lifir skáldið sig inn í ólíkar kringumstæður og forðast sjálfhverfu en finnur til með öllu sem anda dregur og reynir að... skynja fegurð heimsins. Skáldið er þá í stöðu þolanda fremur en geranda og beitir ekki rökhugsun heldur listrænni og fjölþættri skynjun. Innlifun og næmi fyrir náttúrunni setur sterkan svip á kvæði Keats og Snorra, en þeir eiga einnig sameiginlegar ákveðnar skáldskaparaðferðir og ljóðstíl, eins og rakið verður í erindinu. Neikvæð færni felst m.a. í skáldlegri óvissu sem teflt er fram gegn röklegri fullvissu og þannig getur skáldskapurinn náð að sýna lífið eins og það er, í stað þess að fella það að fyrirframgefnum hugmyndum um það sem ætti að vera.

Til baka

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Hleður spjall...
Netspjall