Predikanir og Passíusálmar frá fyrri öldum

05.01.2017

Stór hluti af þeim gögnum sem berast handritasafni á hverju ári eru einkaskjalasöfn frá tuttugustu öld. Yfirleitt er um að ræða dagbækur og bréfasöfn einstaklinga eða fundargerðabækur og önnur gögn félagasamtaka frá miðbiki aldarinnar eða þar um bil. Af og til berast þó eldri gögn til safnsins. Í desember bárust þannig líkræður og predikanir úr fórum sr. Magnúsar Hákonarsonar (1812-1875) í Steingrímsfirði, en hann var leiðsögumaður í Íslandsleiðangri Paul Gaimard  (1793-1858) á árunum 1835 og 1836 og meðritstjóri Skírnis árið 1837 ásamt Jóni Sigurðssyni forseta (1811-1879). Predikanir hans og líkræður eru frá fimmta og sjötta áratugi nítjándu aldar en að auki er að finna eldri uppskrift af málsháttasafni sr. Eyjólfs Jónssonar á Völlum (1670-1745), Adagiologicon Islandicum.
Í desember barst handritasafni einnig handrit að Passíusálmum sr. Hallgríms Péturssonar (1614-1674) frá árinu 1740. Handritið er í einkaeigu í Þýskalandi þar sem það var keypt á forngripasölu, en var lánað til handritasafns til skráningar og myndunar. Hægt er að skoða handritið hér.
Íslensk handrit frá átjándu og nítjándu öld er þannig enn að finna í fórum einstaklinga, bæði innanlands og utan. 


Til baka

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Hleður spjall...
Netspjall