Biblíusafnið var gefið við opnun Þjóðarbókhlöðu 1. desember 1994. Safnið gaf Ragnar Þorsteinsson (1914–1999) kennari en hann hafði safnað biblíunni á hinum ýmsu tungumálum í hálfa öld. Biblíusafnið er á 1228 tungumálum, þ. á m. eru mál og mállýskur margra smárra málsvæða. Biblían er sú bók sem mest er þýdd og í gegnum bréfaklúbba og biblíufélög um allan heim fékk Ragnar eintök af biblíunni eða hluta úr henni á viðkomandi málum. Hann komst í kynni við samtök ungra málfræðinga sem fóru um allan heim til að læra tungumál og mállýskur af ýmsum toga. Þeir skrifuðu oftast niður Markúsarguðspjall, létu prenta þýðingar sínar og sendu árlega til Ragnars. Hann hefur sjálfur flokkað Biblíur sínar eftir málættum og fylgir nákvæm spjaldskrá safninu. Þar er greint frá málaflokki biblíu og síðan undirflokki, einnig hve margir eru taldir mælandi á viðkomandi tungu og á hvaða svæði hún er töluð. Áhugi Ragnars á biblíum var eingöngu málvísindalegur en ekki trúarlegur, hann notaði þær við samanburð á málum og mállýskum.
Netspjall_
Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.