Gjafir

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn tekur við gjöfum sem styrkja safnkostinn og eru í samræmi við aðfangastefnu þess. Þeir sem vilja færa safninu gjafir þurfa, áður en til þess kemur, að hafa samband við tengiliði safnsins. Talsverður kostnaður er við móttöku, skráningu og geymslu safnefnis og því þarf að vera vakandi fyrir því að viðtekið efni muni nýtast gestum þess. Safnið tekur við íslensku og Íslandstengdu efni ef það er ekki til fyrir eða ef aukaeintaka er þörf. Safnið tekur einnig við efni sem styrkir safnkost þess á fræðasviðum Háskóla Íslands eða nýtist íslensku rannsóknarsamfélagi.

Ráðstöfun gjafa

Safnið áskilur sér rétt til að fara með gjafir eins og annan safnkost og ráðstafa þeim að vild. Sömu reglur um notkun, staðsetningu og grisjun gilda um gjafir og annað efni. Ef um umfangsmiklar gjafir er að ræða mun safnið velja úr efni. Ef efni er mjög sérhæft er gjarnan fenginn sérfræðingur til aðstoðar við val. Við afhendingu gjafa geta gefendur óskað eftir því að sækja aftur þau rit sem ekki eru tekin í safnið innan ákveðins tíma. Að þeim tíma liðnum ráðstafar safnið bókunum annað. Gefendur geta óskað eftir skrá yfir það efni sem tekið er inn í safnið.

Safnið tekur ekki við

Safnið tekur að öðru jöfnu ekki við aukaeintökum bóka sem þegar eru til, stökum tímaritsheftum, tímaritum sem eru til í rafrænum aðgangi, úreltum kennslubókum eða handbókum og efni á formi sem er óaðgengilegt. Ekki er tekið við bókum í slæmu ástandi nema um sé að ræða íslenskt eða Íslandstengt efni sem safninu vantar. 

Móttaka gjafa

Algengast er að gjafir séu afhentar óformlega nema í sérstökum tilfellum. Þá getur verið um að ræða formlega afhendingu í samráði gefenda og safns. Í öllum tilvikum skal hafa samband við tengiliði vegna móttöku gjafa. 

Tengiliðir eru:

Bækur og tímarit: Magný Rós Sigurðardóttir, sími 525-5721, gjafir (hjá) landsbokasafn.is
Bréf og handrit: Bragi Þ. Ólafsson, sími 525-5677, handrit (hja) landsbokasafn.is
Tónlist og myndefni: Bryndís Vilbergsdóttir, sími 525-5774, bryndisv (hja) landsbokasafn.is

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Hleður spjall...
Netspjall