#

Prentað efni

Verk sem gefin eru út á pappír eru skilaskyld og á það t.d. við um allar bækur, nótur, skýrslur, bæklinga, öll tímarit og dagblöð, fréttabréf, landakort og margt fleira. Verkin geta verið prentuð, fjölrituð eða fjölfölduð á annan hátt.

Hve mörgum eintökum á að skila?

Af verkum sem gefin eru út á pappír skal afhenda fjögur eintök. Landsbókasafn varðveitir þrjú eintök og Amtsbókasafnið á Akureyri eitt.

Verk gefin út í innan við 50 eintökum eru skilaskyld í tveimur eintökum.

Nýjar útgáfur eru skilaskyldar, enn fremur endurprentanir (þegar tilgreint er í verki að um endurprentun sé að ræða eða þegar ný prentun felur í sér að breyting hefur orðið á búnaði verks, t.d. að því er varðar kápu, bókband eða gerð pappírs.)

Þegar verk er gefið út bæði innbundið og sem kilja ber að afhenda fjögur eintök af hvorri gerð.

Fylgiefni, t.d. geisladiskar, disklingar, snældur, kort og myndbönd, er skilaskylt og skal það efni sem saman á afhendast í einu lagi.

Hver á að skila efninu?

Skilaskyldan hvílir á framleiðsluaðila , þ.e. þeim sem skilar frá sér fullbúnu verki, t.d. prentsmiðjan, fjölföldunarstofan eða bókbandsstofan, þegar verk eru framleidd hér á landi. Sé ekki ljóst hver framleiðsluaðili er eða skil bregðast hjá honum getur móttökusafn farið fram á að útgefandi eða sá sem sér um dreifingu verkanna inni skilaskyldu af hendi.

Þegar um er að ræða verk sem framleitt er erlendis hvílir skilaskylda á útgefanda.

Athygli er vakin á því að efni framleitt í stofnunum hins opinbera, t.d. skólum, sjúkrahúsum, félagsmálastofnunum og rannsóknastofnunum, er einnig skilaskylt.

Afhendingarmáti

Efni má skila með því að senda það í pósti eða afhenda það í afgreiðslu safnsins, merkt „skylduskil“.

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Hleður spjall...
Netspjall