#

Rafrænt efni

Safnið varðveitir einnig efni sem gefið er út á rafrænu formi og á almennu tölvuneti. Slíkt efni er varðveitt í Rafhlöðunni, rafrænu varðveislusafni safnsins og á Tímarit.is. Efni sem er skilaskylt er t.d. rafbækur, skýrslur, tímarit, dagblöð, nótur og margt fleira.

Ef efni er gefið út bæði á prentuðu formi sem og rafrænu þá er skilaskylda á hvoru tveggja skv. lögum um skylduskil. Eins er skilaskylda á mismunandi útgáfum, nýjum eða breyttum.

Hver á að skila?

Útgefandi og/eða framleiðandi ber ábyrgð á skilum á rafrænu efni.

Afhendingarmáti

Afhending fer fram í gegnum rafrænt skilahólf safnsins. Hengja má fleiri en eina skrá við hverja innsendingu en heildarstærð þeirra getur verið allt að 8GB.

Jafnframt er hægt að senda rafrænt efni á netfangið: rafhladan (hja) landsbokasafn.is
Sending sem er stærri en 60MB skal fara um skilahólf safnsins.

Einnig er tekið við efni í gegnum skýjaþjónustur líkt og WeTransfer, Dropbox o.s.frv. en eingöngu ef um mjög stórar og/eða margar skrár er að ræða.

Einnig má skila efni á USB lyklum eða geisladiskum. Slík skil skal senda í pósti eða afhenda í afgreiðslu safnsins, merkt „skylduskil“.

Með sendingu skulu fylgja upplýsingar um hvernig hátta eigi aðgengi að efninu, hvort það eigi að vera í opnum eða lokuðum aðgangi um óákveðinn tíma. Efni skal vera á PDF, ePub eða Mobi sniði. Fjarlægja þarf DRM réttindastjórnun (Digital Rights Management) af rafbókum svo hægt sé að skrá þær. Einnig á því efni sem mun vera í lokuðum aðgangi. PDF skrár af tímaritum, dagblöðum og fréttabréfum skulu vera í sem bestu gæðum (prentsmiðjugæðum) og án skurðarlína. Ritið sjálft og kápa/forsíða þess skal vera í sama PDF skjali og skal ein blaðsíða ritsins opnast á hverri PDF síðu skjalsins, ekki heil opna.

Allar fyrirspurnir um rafræn skil skal senda á skylduskil (hja) landsbokasafn.is

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Hleður spjall...
Netspjall