Saga handritasafns

Upphaf handritasafns Landsbókasafns Íslands eru kaupin á handritasafni Steingríms Jónssonar og Valgerðar Jónsdóttur árið 1846. Í safni þeirra voru, auk eigin verka, einkum gögn frá þeim langfeðgum Hannesi, Finni og Jóni Halldórssyni. Handritasafn Landsbókasafns (safnmark: LBS) óx hægt en alltaf tíndist eitthvað inn, sérstaklega eftir að Jón Árnason bókavörður gaf út kver árið 1862 og hvatti fólk til að efla safnið með því að koma með gögn þangað til varðveislu. Árið 1879 var handritasafn Jóns Sigurðssonar keypt en það innihélt 1.342 handritanúmer (JS). Í safni Jóns voru mörg merk handrit og þeirra merkast líklega eiginhandarrit Hallgríms Péturssonar að Passíusálmunum. Árið 1901 keypti safnið handritasafn Hins íslenska bókmenntafélags, Kaupmannahafnardeildar (ÍB) og Reykjavíkurdeildar (ÍBR), sem innihélt um 1.800 handritanúmer eða safnmörk. Fleiri handritasöfn fékk safnið til eignar á fyrri hluta 20. aldar og ennþá berast því heil söfn ásamt því að einstaklingar koma með eigin gögn eða forfeðra sinna til varðveislu.

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Hleður spjall...
Netspjall