Kjörgripur mánaðarins er gagn úr safni Lárusar Sigurbjörnssonar, fyrrum skjala- og minjavarðar Reykjavíkurborgar. Þann 22. maí næstkomandi verða 120 ár liðin frá fæðingu þessa merkilega manns en Landsbókasafnið varðveitir sviðslistasafn hans.
Safnið inniheldur fjölmörg forvitnileg gögn þar á meðal óútgefin leikhandrit, bæði íslensk og erlend, ýmsar bækur um sviðslistir og spjaldskrár. Kjörgripur mánaðarins er þó af öðrum toga.
Þessi forláta bók er tilraun til að skrá alla þá einstaklinga sem komu að sviðslistum á Íslandi frá stofnun Leikfélags Reykjavíkur árið 1897 til ársins 1974 þegar Lárus lést. Færslurnar eru handskrifaðar og hver þeirra útlistar leikár, sýningarnúmer, leikrit, hlutverk, fjölda hlutverka og önnur störf, s.s. leikstjóri og hljómsveitastjóri. Á meðal nafna sem koma fram í bókinni eru: Helgi Skúlason, Haraldur Björnsson, Messíana Tómasdóttir, Arndís Björnsdóttir og Gísli Rúnar Jónsson.
Færslan fyrir Gunnþórunni Halldórsdóttur telur þrjár blaðsíður en hún deilir reyndar einni síðu með annarri leikkonu, Gunnþórunni Jónsdóttur frá Ísafirði sem er skráð á eina sýningu á leikárinu 1972-1973. Lárus var nákvæmur og allir fengu pláss í bókinni hans, hvort sem þú varst ein þekktasta leikkona Íslands á fyrri hluta 20. aldarinnar eða tókst þátt í einni leiksýningu.
Lárus skrifaði texta Gunnþórunni Halldórsdóttur til heiðurs í afmælisleikskrá Þjóðleikhússins þann 9. janúar 1952 en þá var haldið upp á 80 ára afmæli Gunnþórunnar með heiðurssýningu á Gullna hliðinu og fór hún sjálf með hlutverk Vilborgar grasakonu, hlutverk sem hún gerði frægt. Hann skrifaði sömuleiðis minningargrein í Morgunblaðið eftir andlát hennar.
Leikminjasafnið mun fagna 20 ára afmæli 9. mars næstkomandi en Leikminjasafn Íslands var formlega stofnað á þeim degi 2003. Formleg hátíðarhöld verða í október þegar sýning á teikningum listamannsins Lothar Grund verður opnuð í Landsbókasafninu.
Bókin með leiklistarskrá Lárusar Sigurbjörnssonar er til sýnis í mars á Íslandssafni.
Eldri kjörgripur
Sjá nánarNetspjall_
Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.
Spjallið er opið 9:00 - 16:00 virka daga.