Hvað eru skylduskil?

21.02.2024

Á Íslandi eru í gildi lög um skylduskil til safna (nr. 20/2002). Lögin kveða á um að skila skuli til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns eintökum af öllu efni sem gefið er út á Íslandi eða ætlað til dreifingar á íslenskum markaði utan kvikmynda og útvarpsefnis en því skal skila til Kvikmyndasafns Íslands.  

Það þýðir að eintökum af allri tónlist, bókum, tímaritum, skýrslum, auglýsingabæklingum og öðru sem gefið er út, skal skila til safnsins og ber safninu að veita aðgang að efninu og varðveita um ókomna tíð. Þetta á við um efni á öllum útgáfuformum, t.d. ef bók kemur út á prenti og sem raf- og/eða hljóðbók þá þarf að skila henni á öllum þeim útgáfuformum. Einnig ef hún er fyrst prentuð innbundin og síðan á kiljuformi skal skila safninu báðum útgáfum. 

Þannig eru allar bækur Auðar Haralds, tónlist Stuðmanna, unglingabækur Þorgríms Þráinssonar, Morgunblaðið, tímaritið Séð og heyrt, auglýsingabæklingar frá Bónus og Hagkaup ásamt mörgu öðru fjölbreyttu efni varðveitt hjá safninu tíð sem hluti af menningararfi okkar Íslendinga. 

En þetta þýðir ekki að við söfnum bara efni eftir fræga rithöfunda eða áberandi fyrirtæki. 

Hefur þú eða einhver sem þú þekkir gefið út bók? Komið að útgáfu tímarits eða tónlistar? Kannski eigum við eintök af efninu en kannski ekki, og þá viljum við gjarnan fá eintök til varðveislu. 

Viltu vita meira? Þú getur lesið meira um skylduskil á vef safnsins en einnig er hægt að senda starfsfólki skylduskila tölvupóst – skylduskil@landsbokasafn.is.  


Til baka

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Hleður spjall...
Netspjall