
Bækur, tímarit, dagblöð, tónlist, plaköt, bæklingar og fleira efni sem gefið er út á Íslandi er efni sem Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn á að safna og varðveita. Þetta er eitt af meginhlutverkum safnsins og nefnist skylduskil. Með skylduskilum er tryggt að menning samtímans varðveitist sem menningararfur framtíðarinnar og sé öllum aðgengileg til fróðleiks og rannsókna um ókomna tíð.
Til stuðnings þessu hlutverki eru í gildi lög um skylduskil til safna, nr. 20/2002. Í þeim er útgefendum, prentsmiðjum og öðrum framleiðendum gert skylt að skila til safnsins ákveðnum fjölda eintaka af öllu útgefnu efni til varðveislu, óháð útgáfuformi. Fjöldi eintaka sem ber að skila fer eftir upplagi hverju sinni.
Allt útgefið efni á prenti sem og á stafrænu/rafrænu formi, t.d. hljóð- og rafbækur, tónlist, kvikmyndir og vefsíður, telst skilaskylt efni. Skylduskilalögin ná einnig yfir það efni sem framleitt er erlendis fyrir íslenska útgefendur eða höfunda.
Með þessu móti lifa verkin áfram sem hluti af menningararfi íslensku þjóðarinnar og endurspegla þá fjölbreyttu menningarflóru sem ríkir hverju sinni.
Viltu athuga hvort þitt efni hafi borist safninu í skylduskilum? Flettu titlinum upp á lbs.leitir.is eða sendu okkur fyrirspurn á skylduskil (hja) landsbokasafn.is.
Netspjall_
Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.